Færsluflokkur: Tölvur og tækni
28.6.2007 | 12:27
Ég las...
Minningargrein föður, um dóttur sína, sem látist hafði á LSH í kjölfar fíkniefnaneyslu. Nöturleg lífsreynsla sem þar er lýst en, því miður, langt frá því að vera einsdæmi að foreldrar lendi í þessum ömurlegu aðstæðum, að horfa á eftir börnum sínum í dauðann föngnum í viðjum fíknarinnar. Í þessari ítarlegu minningargrein fjallar faðirinn um hluta þess heims, sem ungmenni þessa lands, mörg hver, þurfa að glíma við:
"Á Íslandi hefur aldrei verið framið hryðjuverk, en við höfum miklar varnir gegn þeim. Öflugustu glæpasamtök heims sjá um framleiðslu og dreifingu eiturlyfja. Þau eru eiturlyfjastóriðnaðurinn. Viðskiptaplanið er einfalt, en eitursnjallt. Markhópurinn er 16-18 ára unglingar í vanda. Ef viðskiptavinirnir nást á þessum mótunarárum næst þrælbundinn hópur framtíðarviðskiptavina. Markaðsaðferðin er maður á mann. Skilaboðin eru í fyrsta lagi að nafngreindir eru þjóðþekktir menn. "Sérðu NN? Ég sel honum. Það er bara bull að eiturlyf skaði alla. Það er persónubundið. Við höfum líka vald. Undir okkar vernd ertu öruggur." Næsta stig er bein símasala. Þú losnar aldrei undan henni. "Vantar þig ekki...? Ég var að fá nóg af því. Ertu blankur? Við reddum því." Hluti skemmtanaiðnaðarins styður svo við."
Mér fannst athyglisvert að lesa þennan kafla í minningargreininni sérstaklega þar sem ég er einmitt nýbúinn að lesa ítarlegt viðtal við Davíð Garðarsson í DV, en hann var lengi vel var á flótta undan réttvísinni til að koma sér undan því að afplána dóm hér á landi. Í því viðtali segir Davíð frá því að hann hafi ekki staðið í innflutning eða sölu fíkniefna hér á landi. Hann kveðst hafa haft milligöngu - og grætt vel á því - um að þeir sem eiga peninga komi þeim í góða ávöxtun í fíkniefnaheiminum! Hann kvaðst enda þekkja menn í báðum þessum heimum (væntanlega þá fíkniefnaheiminum annarsvegar og fjármálaheiminum hinsvegar). Þetta fannst mér afar fróðleg lesning, sérstaklega í ljósi þess að ýmsir þjóðþekktir einstaklingar, sem starfað hafa í fíkniefnadeild lögreglunnar hafa einmitt bent á þessa staðreynd, í hinum ýmsu blaða- og tímaritaviðtölum í gegnum tíðina. Það virðist hinsvegar fara afar lítið fyrir, allavega í fréttum fjölmiðla, að einhver / einhverjir hafi fengið á sig dóma fyrir fjármögnun fíkniefnakaupa, nema náttúrulega það hafi alveg farið fram hjá mér, sem kannski er ekki alveg útilokað. Hitt er allavega ljóst, af yfirlestri erlendra fréttamiðla, að sú lýsing, sem Davíð Garðarsson kemur með af milligöngu sinni á við rök að styðjast, allavega úti í hinum stóra heimi og engin rök sem ég hef séð sína fram að þessu sé öðruvísi farið hér á landi.
Faðir stúlkunnar bendir á að lögregla þurfi auknar heimildir og sterkari til að vinna sína vinnu í þessum málum. Þá hefur hann einnig bent á þá einföldu staðreynd að þeir sem ekkert hafa að fela þurfa ekki að óttast afskipti lögreglu. Slíkt hafa yfirmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar einnig gert, ef minni mitt brestur ekki, sömuleiðis yfirmenn tollgæslu landsins. Þá hefur saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóranum einnig bent á að hans deild þurfi eflingar við, sem og aukinna heimilda til vinnu í þeim málum sem þar er fjallað um.
Dómsmálaráðherra hefur marglýst sig reiðubúinn til að stórefla löggæslu í landinu, oft á tíðum gegn niðurdrepandi áróðri afturhalds- og niðurrifsafla.
Framsóknarflokkurinn - blessuð sé minning hans - lofað milljarði í baráttu gegn fíkniefnum.
Yfirvöld þessa lands lýstu því yfir að Ísland ætti að verða orðið fíkniefnalaust árið 2002 en nú virðist manni sem ástandið í þessum málaflokki hafi aldrei verið verra, af lestri fjölmiðla að dæma.
Ísland, lítil eyja í miðju Norður Atlantshafi er í lykilaðstöðu, með eflingu þeirra úrræða sem nú þegar eru fyrir hendi í landinu, til að stórlega sporna við, og jafnvel stöðva alfarið, innflutning þess eiturs sem ósvífnir sölumenn dauðans halda að börnum okkar.
Hér þarf kjark og þor og stórauknar heimildir - bæði fjár- og lagaheimildir til handa toll- og löggæslu - en ég hef trú á því að með samstilltu átaki allra landsmanna og þeirri öflugu ríkisstjórn sem nú er við völd megi takast að ná því markmiði að Ísland verði fíkniefnalaust.
Nú er í raun ekkert annað að gera en að borgarar þessa lands krefjist þess (sem þeir eiga að sjálfsögðu ekki að þurfa að gera) að yfirvöld láti hendur standa fram úr ermum og efni þau loforð, sem gefin hafa verið, margoft, í þessum efnum og geri Ísland, í eitt skipti fyrir öll fíkniefnalaust!
Tölvur og tækni | Breytt 7.7.2007 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)