Nauðungarsölur

Nú nýverið voru samþykkt á Alþingi - ekki í fyrsta sinn - lög um breytingu á lögum um nauðungarsölur sem gera það að verkum að einstaklingar sem eru komnir "í skjól" með greiðslur af stökkbreyttum lánum, í ýmsum myndum geta nú andað eilítið léttar eða a.m.k. til 1. mars 2015.  Það eitt að það þurfi að grípa til þess ráðs að gera slíkar breytingar á lögum um nauðungarsölur - og eins og áður sagði ekki í fyrsta sinn - fær hinn venjulega meðaljón - ætti a.m.k. að gera það - til að staldra eilítið við og hugsa.  Þannig var það allavega með mig þegar ég heyrði af þessum breytingum á lögunum, fyrst þegar þær voru gerðar og þannig var það með mig þegar ég heyrði af þeim breytingum sem gerðar voru núna síðast eða fyrir aðeins örfáum dögum síðan.

Það var svo allt í einu að maður einn að nafni Sturla Hólm Jónsson, sem ég hef reyndar verið málkunnugur til fjölda ára og heilsað þegar ég hef rekist á hann á förnum vegi (enda báðir úr Breiðholtinu) hafði samband við mig símleiðis og falaðist eftir smá fundi með mér.  Ég varð við beiðninni um fund enda vanur að verða við slíkum beiðnum svo fremi að tími minn leyfi slíkt.  Á umræddum fundi sýndi Sturla mér myndbandsupptökur og ýmis skjöl og pappíra tengt nauðungarsöluferli á heimili hans.  Ég horfði á upptökurnar, las í gegnum skjölin, og sat einfaldlega eftir agndofa!!!  Gat það virkilega verið að það sem ég sá og heyrði á upptökunum hefði virkilega gerst með þeim hætti sem upptökurnar sýndu og skjölin - öll sem eitt - studdu?  Gat það virkilega verið að embætti sýslumannsins í Reykjavík ynni sem einskonar "stimpilstofnun" fyrir lánadrottna þessa lands, sinnti ekki rannsóknar- eða leiðbeiningarskyldum sínum gagnvart gerðarþola og gengi ekki úr skugga um lögmæti framlagðra krafna, gagna og skjala í málum er varða aleigu almennings, heimili þess og barna þeirra og já jafnvel ævistarf?  Nei ég trúði varla mínum eigin augum né eyrum þegar ég sá, heyrði og las það sem Sturla lagði á borðið fyrir framan mig!  Ég eiginlega lifði áfram í þeirri afneitun sem ég - og sjálfsagt margir, margir aðrir hafa lifað í til þessa.  Kerfið hlýtur að starfa rétt!  Kerfið hlýtur að gæta - hlutlaust - hagsmuna allra sem til þess leita!  Kerfið hlýtur að standa vörð um þá sem minna mega sín gagnvart ofurefli bankakerfisins!  Kerfið hlýtur að gæta - af hlutleysi - laga og réttar allra málsaðila!  Kerfið hlýtur að sinna leiðbeiningarskyldum sínum o.s.frv!

Mér varð satt best að segja verulega brugðið að sjá, heyra og lesa það sem fram fór þegar fyrsta nauðungarsala á heimili Sturlu fór fram!

Í mínum huga hafði kerfið einfaldlega brugðist á allan mögulegan og ómögulegan hátt!

Sturla tjáði mér einnig á umræddum fundi að hann hefði kært gjörning sýslumanns til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í þeirri von að þar á bæ myndi kerfið vakna af Þyrnirósarsvefni sínum og eitthvað  yrði gert til að leiðrétta þau rangindi sem unnin höfðu verið gegn svo mörgum fjölskyldum þessa lands.  Allt kom fyrir ekki - kæru Sturlu var vísað frá án rannsóknar og á þeim forsendum að um einkamál værii að ræða.  Allt í raun og veru mjög skiljanlegt þar sem það er einfaldlega ekki hlutverk lögreglu að rannsaka einkamál.  En stöldrum nú aðeins við hér eitt augnablik þar sem Sturla benti á í kæru sinni að hér væri mögulega á ferðnni brot gegn 130. gr. almennra hegningarlaga sem og mögulegra brota gegn nauðungarsölulögum o.fl.  Hér hefði kerfið átt að staldra aðeins við og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að setja málið í frekari skoðun (rannsókn) til að kanna hvað hævt væri í kæru Sturlu á hendur embætti sýslumannsins í Reykjavík en nei kærunni var umsvifalaust vísað frá - án allrar rannsóknar - þar sem hér væri um að ræða einkamál (skuldaskil) en ekkert litið til mögulegra og kærðra hegningarlagabrota.  Sama sagan var uppi á teningunum þegar Sturla leitaði til Ríkissaksóknara með kæru sína.

Ég kynnti mér málið enn frekar eftir tvo aðra fundi með Sturla og tveimur öðrum einstaklingum sem höfðu sömu eða svipaða sögu að segja af samskiptum sínum við sýslumenn þessa lands.  Það var ekki um villst, sýslumenn einfaldlega (m.v. þau dæmi sem ég hef séð) uppfylla hvorki rannsóknar- né upplýsingaskyldur sínar gagnvart gerðarþolum er viðlýtur nauðungarsölur.  Þeir virðast, því miður, taka og stimpla fram og aftur, algerlega án nokkurrar gagnrýninnar skoðunar, skjöl frá meintum skuldareigendum og það án þess að kynna sér skuldaskilmála þeirra lána sem kröfur bankanna byggjast á t.a.m. um framsal skulda á milli kennitalna (bankastofnana) o.fl. í þeim dúr.  

Ég efast ekki um það eitt augnablik að Sturla Hólm Jónsson skuldar einhverjum banka einhverjar upphæðir vegna t.d. húsnæðiskaupa.  Það eru sennilega afar fáir Íslendingar sem ekki skulda einhverri lánastofnun einhverjar fjárhæðir vegna húsnæðiskaupa, atvinnurekstrar o.s.frv.  Sturla Hólm Jónsson verður hinsvegar, líkt og ég og hver annar Íslendingur, að geta treyst því að rétt sé að málum staðið þegar sýslumenn sýsla með það að selja ofan af fólki eigur þess og húsnæði.  Sturla Hólm Jónsson, líkt og ég og hver annar Íslendingur, verður að geta treyst því að sýslumenn gæti hlutleysis í sýslunarathöfnum sínum og "rannsaki" jöfnum höndum atriði - af fyllsta hlutleysi - er varða "sekt eða sýknu" þess sem í hlut á hverju sinni.  Sýslumenn geta ekki leyft sér það að taka - gagnrýnilaust - við hvaða pappírum sem er frá lánastofnunum og selja í framhaldinu eigur fólks og húsnæði ofan af því.  Skuldareigandi hlýtur að þurfa að sýna fram á það með óyggjandi rökum og skjölum að hann sé réttmætur eigandi þeirrar skuldar sem hann krefst lúkningar á!

Það hlýtur einhver vafi að vera á kreiki einhversstaðar, er kemur að nauðungarsölum, fyrst löggjafinn finnur sig knúinn til þess, oftar en einu sinni, að gera breytingar á lögum um nauðungarsölur, er lúta að því að fresta fullnustu slíkra gerða um margra mánaða skeið hverju sinni!  

Með þetta í farteskinu svaraði ég spurningum útvarpsmannsins Markúsar Þ. Þórhallssonar í morgunþætti Útvarps Sögu s.l. föstudag.  Reyndar var rætt um fjölda mörg önnur atriði í þessu viðtali, en orð mín - með öllum mögulegum og ómögulegum fyrirvörum - er lutu að samskiptum mínum við Sturla Hólm Jónsson, sbr. ofanritað og samskipti hans við embætti sýslumannsins í Reykjavík urðu tilefni sérstakrar yfirlýsingar embættisins þar sem látið er í það skína að ég hafi ekki kynnt mér þetta eða hitta.  Dæmigerð viðbrögð þess sem áttar sig á því að kannski hafi nú ekki allt farið fram skv. orðanna og reyndar laganna hljóðan.  Dæmigerð viðbrögð kerfisins að hjóla í manninn en ekki málefnið!  

Málið er nefnilega það - hvað sem líður óundirritaðri yfirlýsingu sýslumannsins í Reykjavík - að ég hef kynnt mér málið, sem og lögin, afar vel!  

Ef sýslumaðurinn er svo viss í sinni sök, sem yfirlýsing embættis hans ber vott um og - að allt hafi farið fram í máli Sturla Hólm Jónssonar  þegar húsnæði hans var selt fyrstu nauðungarsölu - skv. laganna hljóðan í hvívetna og skv. bestu, réttustu, réttlátustu og löglegustu sýslunarathöfnum við feril slíkra mála eins og löggjafinn, með tilheyrandi lögskýringargögnum, hefur mælt fyrir um hvernig skuli farið með, þá hlýtur sýslumaðurinn að geta gefið út opinbera þinglýsta yfirlýsingu, að viðlagðri persónulegri refsi- og fébótaábyrgð þess efnis að svo sé máli farið gagnvart Sturla Hólm Jónssyni og öðrum, sem þegar hefur verið selt ofan af húsnæði og þeim sem enn eiga eftir að lenda í sömu sporum og Sturla Hólm Jónsson!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband