21.12.2007 | 00:24
Æ, pólitík...
...er skrýtin tík.........
Ég las það í dag að Þorsteinn Davíðsson, sonur Davíðs Oddssonar, fyrrv. forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra, hafi verið skipaður héraðsdómari við héraðsdóm austurlands og norðurlands. Ég hef svo sem enga sérstaka skoðun á málinu aðra en þá að svo virðist sem ekki hafi verið valinn hæfasti umsækjandinn a.m.k. ef marka má frétt á visir.is (http://www.visir.is/article/20071220/FRETTIR01/71220095/-1/trailerKompas.jpg) en þar segir að sérstök nefnd, sem falið var að meta hæfi umsækjenda, hafi komist að því að að a.m.k. þrír umsækjendur, um stöðuna, hafi verið hæfari en Þorsteinn!!
Eðlilega spyr maður: Hvað er hér á seyði? Þannig ætti líka hver einasti Íslendingur að spyrja sjálfan sig! Þetta er jú opinber staða og kostnaður við hana, þ.m.t. laun þess sem í henni situr, greiddur af almannafé!
Þorsteinn á, að sjálfsögðu, ekki að gjalda þess að vera sonur föður síns en hann á, að sama skapi, ekki að njóta þess umfram aðra umsækjendur um þá stöðu sem hann sótti um - slíkt er dæmi um spillingu, hvort sem sú spilling er af pólitískum eða öðrum toga. Að sama skapi á hann ekki að njóta þess sérstaklega að hafa verið aðstoðarmaður dómsmálaráðherra þar sem sú staða er ekki auglýst til umsóknar heldur handvalin af viðkomandi ráðherra.
Hvað sem öllu öðru líður þá áleit nefnd sérfræðinga, sem til þess voru fengnir, að þrír aðrir umsækjendur um stöðuna hafi verið hæfari en Þorsteinn og, ef allt væri eðlilegt, ætti einn þeirra að fá stöðuna, en ekki Þorsteinn. Sama hvað dýralækninum finnst...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.