15.3.2009 | 13:51
Því er...
...lokið.
Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, vegna komandi Alþingiskosninga er nú lokið. Það verður að segjast, alveg eins og það er, að kosningaþátttakan var afar dræm t.a.m. í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi (Kraganum) þar sem ég bauð mig fram. Endurnýjun hefur ekki orðið mikil á listum flokksins á landsvísu sem ég því miður held að eigi eftir að koma flokknum í koll í komandi kosningum til Alþingis. Guðbjörn Guðbjörnsson félagi minn og vinur ritaði ágætis færslu um þetta á sínu bloggi í dag.
Það er skemmst frá því að segja að ég, líkt og félagi minn og vinur Guðbjörn, tapaði með "glæsibrag"!
Ég ákvað það, um leið og ég ákvað að taka þátt í þessu prófkjöri að halda kostnaði við kynningar á sjálfum mér í algjöru lágmarki. Ég ákvað það líka, líkt og Dögg Pálsdóttir, að gefa upp til almennings hver kostnaðurinn yrði og geri ég það hér með:
Kostnaður minn vegna þátttökunnar í þessu prófkjöri var kr. 50.000,-
Þessi kostnaður er tilkominn vegna þátttöku í vefsíðunni www.profkjor.is, prentunar á kynningarriti í kjördæminu, þátttaka í sameiginlegum framboðsfundum og tölvupóstsending til flokksbundinna Sjálfstæðismanna sem skrifstofa flokksins sá um.
Ég ákvað það, um leið og ég ákvað að gefa kost á mér í þessu prófkjöri, að opna ekki kosningaskrifstofu, prenta ekki neitt kynningarefni um mig sérstaklega, standa ekki að neinum úthringingum og setja ekki neinar auglýsingar í blöð, sjónvarp eða netmiðla. Það eina sem hefur birst, þar sem ég hef verið kynntur er sameiginlegt blað sem gefið var út af kördæmisráði Sjálfstæðisflokksins (sjá kostnað hér að ofan) og sérstök útgáfa af blaðinu Garðar sem gefið er út af Sjálfstæðisfélaginu í Garðabæ.
Ég þakka sérstaklega öllum þeim sem kusu mig í þessu prófkjöri og sýndu með því trú sína og traust á mig!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2009 kl. 13:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.