Jæja...

...þá kom að því að auglýst hefur verið, laus til umsóknar, staða ríkissaksóknara.  Staðan veitist frá og með 1. janúar 2008, eins og ákveðið var í kjölfar mikilla skrifa um stöðuna og hugsanlega veitingu hennar, í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Auglýsinguna sjálfa má lesa hér fyrir neðan: 

Laust embætti sem dómsmálaráðherra veitir

Embætti ríkissaksóknara er laust til umsóknar.
Embættið er veitt frá og með 1. janúar 2008.
Umsóknir berist dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Skuggasundi, Reykjavík eigi síðar en 19. nóvember n.k.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
1. nóvember 2007.

Og þeir, sem það vilja, geta séð hana sjálfir á starfatorg.is, með því að smella hér (athugið þó að auglýsingin fellur sjálfkrafa út eftir 19. nóvember, þegar umsóknarfrestur um hana rennur út):

http://www.starfatorg.is/serfr_stjornun/nr/9428

Ýmsir skríbentar héldu því fram að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefði þá þegar verið búinn að ráðstafa stöðunni til Jóns H. B. Snorrasonar, fyrrverandi saksóknara efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóranum en núverandi aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. 

Einn umsækjenda um stöðuna, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hrl. hélt því fram, í fjölmiðlum að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra hafi verið búinn að ákveða, áður en staðan var auglýst laus til umsóknar, hver fengi hana og því dró hann umsókn sína til baka.  Þá var fullyrt að fleiri umsækjendur um stöðuna íhuguðu að draga umsóknir sínar til baka, þar sem þeir hefðu fengið tilfinningu fyrir því, í viðtali við dómsmálaráðherra, vegna stöðuveitingarinnar, að búið væri að ráðstafa henni.

Jóhannes Jónsson, kaupmaður kenndur við Bónus, birti heilsíðuauglýsingu í blöðum, fyrir alþingiskosningarnar, þar sem hann hvatti kjósendur til að kjósa sjálfstæðisflokkinn í kosningunum en hvatti jafnframt kjósendur í Reykjavík til að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum og spurði þeirrar spurningar hvað það gæti verið sem Jón H. B. hefði á Björn úr því hann hyggðist skipa hann í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður.  Var Jóhannes þá, að sjálfsögðu, að vísa til Baugsmálsins svokallaða.

Þó nokkrir netpennar skrifuðu um þetta á sínum tíma og lesa má hluta þeirra skrifa, með því að smella á tenglana hér fyrir neðan:

http://hux.blog.is/blog/hux/entry/206614/ 

http://fridjon.blog.is/blog/fridjon/entry/206790/

http://stebbifr.blog.is/blog/stebbifr/entry/203007/

Lesa má um frestun á skipun í embættið á mbl.is - hér: 

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1268489 

 

Nú stendur spurningin eftir, ósvöruð: Hver fær hið háa embætti?

Ef að líkum lætur, mun Björn skipa Jón H. B. í embættið en það verður hinsvegar ekki lýðum ljóst fyrr en nær dregur jólum.  Það verður líka fróðlegt að sjá hverjir sæki um stöðuna nú.

Þá má sjá fyrir sér að leikar skipist, einhvern vegin, með þessum hætti:  Björn skipar Jón H. B. í embætti ríkissaksóknara en við þá skipun losnar staða aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins (LRH) en eitt af skilyrðum til að hljóta þá stöðu er það að vera lögfræðimenntaður.  Þá má ímynda sér að Friðrik Smári Björgvinsson núverandi yfirlögregluþjónn rannsóknardeilda LRH fái stöðuna, sem Jón H. B. gegnir nú en Friðrik Smári er einmitt lögfræðimenntaður, ásamt því að vera lögregluskólagenginn.  Þá verður svo aftur fróðlegt að sjá hver hljóta myndi stöðu Friðriks Smára, sem yfirlögregluþjónn rannsóknardeilda, ef "plottið" gengur eftir, eins og því er lýst hér.

Þá væri líka gaman, í þessu samhengi öllu, að skoða þróun löggæslustofnana síðustu ár eða allt frá niðurlagningu rannsóknarlögreglu ríkisins (RLR) árið 1997 og það hvernig 19 manna embætti ríkislögreglustjóra hefur gorkúlast út í það að verða yfir 100 manna stofnun og hvernig nýtt embætti LRH hefur blásið út yfirbyggingu sína, frá upprunalegum hugmyndum um embættið.  Það var nefnilega ýmislegt "plott" í gangi með stöðuveitingar við niðurlagningu RLR en ekki jafnvíst að margir muna þá sögu alla.  Kannski ég setjist niður síðar og blogi eilítið um það.

Þetta gæti orðið efni í spennandi jólafarsa, sem gefa mætti út í jólabókaflóðinu komandi.  Gæti jafnvel orðið skemmtilegt útvarpsleikrit í ösinni fram að jólum..............


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband