"Óheppilegt"

Ég var að fara yfir eldri gögn hjá mér og rakst á þennan pistil, sem ég flutti í útvarpinu (morgunþætti Kiss FM 89,5 - stöðin er hætt útsendingum) fimmtudaginn 31. ágúst 2006.

Mér fannst athyglivert að lesa pistilinn núna, sérstaklega í ljósi þess sem hefur verið að gerast undanfarnar fimm vikur eða svo og fannst því rétt að birta hann hér ef vera kynni að einhver hefði áhuga á að lesa hann:

"Það var óheppilegt, sagði lagaprófessorinn á Akureyri, um það að Árna Johnsen skyldi verða veitt uppreisn æru sinnar vegna brota sem hann framdi, ekki einungis í opinberu starfi, heldur sem þingmaður á hinu háa Alþingi Íslendinga. Sjálfri löggjafarsamkundunni þar sem samin eru lög fyrir sauðsvartan almúgann að fara eftir. Ef við, aumingjarnir, förum svo ekki eftir lögunum erum við dæmd til refsingar, sem allt er nú gott og vel. Það sem hinsvegar vekur sérstaka athygli í þessu máli er að maður, sem á starfa síns vegna, að vera fyrirmynd okkar hinna – hann jú átti þátt í því til margra ára að setja okkur leikreglurnar – skuli, nánast óumbeðið, ef marka má orð hans sjálfs í fjölmiðlum fá uppreisn æru fyrir það að stela frá okkur til sinna eigin þarfa. Það sem vekur líka athygli í þessu öllu saman er sú staðreynd að það skuli vera flokkssystkin hans úr Sjálfstæðisflokknum, sem handhafar forsetavalds í fjarveru Forseta Íslands, sem tóku þá undarlegu ákvörðun að veita Árna Johnsen uppreisn æru sinnar. Þau hefðu betur, að mínu mati og reyndar lagaprófessorsins á Akureyri líka, beðið komu Forsetans til landsins og leyft honum að glíma við þessa þraut. En þetta er nú allt saman búið og gert líkt og glæpur Árna sem hann hefur jú tekið út sína refsingu fyrir í einu af yfirfullum fangelsum landsins. Hann virðist líka vera einn af afar fáum sem náð hafa að koma þaðan út fullur iðrunar, lofandi bót og betrun og það sem meira er hafandi fundið listagyðjuna innra með sér í betrunarvistinni og límir saman grjót í gríð og erg. Árni greyið talaði nú reyndar um að þetta hafi allt saman verið mistök þegar rætt var við hann í sjónvarpinu í gær og ætli hann hafi ekki bara óvart LENT í þessu óhappi. En – batnandi mönnum er best að lifa segi ég og til hamingju Árni með að komast aftur að kjötkötlunum.

Það er þá kannski líka von, fyrir olíusamráðsfurstana, eftir að þeir hafa hlotið sinn dóm og uppreisn æru frá m.a. maka sínum að þeir finni innra með sér frið og ró eftir að hafa haft af meginþorra landsmanna fé, með ólögmætum hætti til margra ára, að þeir finni hjá sér skapandi þörf og haldi jafnvel sýningar á einhverjum klessuverkum eða grjóthnullungum, sem þeir gætu svo, sameinast um að selja ríkinu á uppsprengdu en að sjálfsögðu sama verði allir sem einn. Einn fyrir alla og allir fyrir einn sögðu skytturnar þrjár. Kannski það hafi líka verið kjörorð olíufurstanna þriggja?

Æ það er svo gaman að fylgjast með stjórnendum bananalýðveldisins, hverjum á fætur öðrum reyna að draga hvern annan upp úr skítnum, sem þeir hafa mokað yfir sig trekk í trekk, algerlega hjálparlaust. Svo er talað og talað og malað og malað og lofað og lofað og svikið og svikið og stolið og stolið, meira og meira úr vösum almúgans til að lækka skatta og minnka skyldur þessara sömu bananatínslumanna. Stolið svo furstarnir geti haldið úti vinnuhjúum og farið til útlanda á okkar kostnað. Við erum jú bara óþjóðalýður og skríll, sem ekki einu sinni gætum lifað í vellystingum praktúðlega þó okkur væru færðir gull og grænir skógar. Við myndum bara sigla fleyinu í strand í endalausu gullæði og neyslufylleríi, eins og okkur er sagt að við séum að gera núna. Við erum bara vitleysingar og þeir eru snillingar, sem stjórna bananalýðveldinu.

Það er kominn tími til að gera eitthvað annað en að tala og tala og mala og mala. Það er kominn tími til að sýna bananaplantekrueigendunum að það er fylgst með þeim og gera þeim það ljóst að þeir verði dæmdir af verkum sínum og hjáverkum líka þegar kemur að kosningum. Það er kominn tími til að hleypa heiðarlegum einstaklingum að því að stjórna þessu landi okkar til enn meiri hagsældar. Það er kominn tími til að hreinsa til í skúmaskotum þjóðfélagsins og koma bak við lás og slá glæpamönnum þessarar þjóðar, hvar sem þeir kunna að leynast. Það er kominn tími til að skila auðu í kosningum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Æjá, sagði hann, dæsti og sló sér á lær. Við lærum aldrei neitt.

Markús frá Djúpalæk, 26.11.2008 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband